Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Sjóstangaveiðifélag Húsavíkur kærir ákvörðun Fiskistofu dags. 27. apríl 2012 um synjun um leyfi fyrir fiskiskipið Aþenu ÞH 505, til þess að stunda hvort tveggja (samhliða) strandveiðar og frístundaveiðar á fiskveiðiárinu 2011/2012.

Stjórnsýslukæra

Með bréfi, dags. 26. júlí 2012, kærði Elín Björg Ragnarsdóttir lögfræðingur, f.h. Sjóstangaveiðifélags Húsavíkur, ákvörðun Fiskistofu dags. 27. apríl 2012 um synjun um leyfi fyrir fiskiskipið Aþenu ÞH 505, til þess að stunda hvort tveggja (samhliða) strandveiðar og frístundaveiðar á fiskveiðiárinu 2011/2012.
    Þess er krafist í kærunni að ákvörðun Fiskistofu verði felld úr gildi og fallist á sjónarmið kæranda.      
    Um meðferð kærunnar fer samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæran barst innan kærufrests. Með bréfi dags. 15. ágúst 2012 leitaði ráðuneytið umsagnar Fiskistofu um kæruna. Umsögn stofnunarinnar barst með bréfi dags. 27. september 2012 Með því að í umsögninni voru hvorki færð fram ný sjónarmið eða gögn var ekki talin ástæða til að gefa Sjóstangaveiðifélaginu tækifæri til að tjá sig um hana áður en mál þetta yrði tekið til úrskurðar.

Málsatvik og málsmeðferð

    Fiskiskipið Aþena ÞH 505 er í eigu Sjóstangaveiðifélags Húsavíkur. Samkvæmt upplýsingum í kæru hefur félagið leyfi Ferðamálastofu skv. 8. gr. laga nr. 73/2005, eins og áskilið er í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Skipinu hefur verið haldið til strandveiða á síðustu árum, en hugmyndir hafa verið um að selja ferðamönnum siglingu á því um Skjálfandaflóa samhliða strandveiðum, þ.e. um kvöld og helgar. Þá yrðið boðið upp á hvalaskoðun og möguleika á því að ferðamenn gætu dregið sér einn til tvo fiska til matar.

    Með umsókn til Fiskistofu dags. 30. mars 2012 óskaði Sjóstangaveiðifélagið eftir leyfi til frístundaveiða án aflaheimilda, þ.e. skv. 1. tl. 4. mgr. 6. gr. laga um stjórn fiskveiða. Í umsókninni var vísað til meðfylgjandi greinargerðar RG lögmanna, dags. sama dag, en með henni var jafnframt sótt um heimild til strandveiða. Með bréfi dags. 27. apríl 2012 hafnaði Fiskistofa þessari umsókn, m.a. með vísun til 4. gr. laga um stjórn fiskveiða, þar sem segir að á sama fiskveiðiári geti skip aðeins haft eina gerð veiðileyfis. Um leið benti stofnunin á að mögulegt væri að sækja um annað hvort leyfið.


Sjónarmið Sjóstangaveiðifélags Húsavíkur

    Sjóstangaveiðifélagið telur að um fullan aðskilnað yrði að ræða milli strandveiða og frístundaveiða um borð í skipi félagsins, þar sem um ólík veiðarfæri er að ræða og ólíkan tilgang. Félaginu sé mikilvægt að geta nýtt dýran bát til ferðaþjónustu utan hefðbundins strandveiðitíma, þ.e. um helgar og á kvöldin. Lög um stjórn fiskveiða banni ekki að fiskiskip hafi hvort tveggja í senn strandveiðileyfi og frístundaveiðileyfi, og því sé ekkert því til fyrirstöðu að Fiskistofa veiti umbeðin leyfi.

    Félagið vísar til 4. gr. laga um stjórn fiskveiða, þar sem segir að enginn megi „stunda veiðar í atvinnuskyni við Ísland nema hafa fengið til þess almennt veiðileyfi. Almenn veiðileyfi eru tvenns konar, þ.e. veiðileyfi með aflamarki og veiðileyfi með krókaaflamarki. Á sama fiskveiðiári getur skip aðeins haft eina gerð veiðileyfis.“ Telja verði að veiðar í atvinnuskyni, í skilningi laganna, séu veiðar með ýmist aflamarki eða krókaaflamarki, en aðrar veiðar samkvæmt lögunum „teljist því ekki veiðar í atvinnuskyni“. Áskilnaður um að skip geti aðeins haft eina gerð veiðileyfis á sama fiskveiðiári vísi til þess að skip geti ekki, á sama árinu, haft bæði aflmark og krókaaflamark. Þetta sjónarmið styrkist af því að í 7. mgr. 6. gr. laganna er gert ráð fyrir því að frístundaveiðiskip hafi jafnframt almennt veiðileyfi, og að í 24. gr. laganna sé kveðið á um viðurlög með sviptingu annars vegar leyfis til veiða í atvinnuskyni eða leyfis til strandveiða.

    Félagið rekur ákvæði laga um stjórn fiskveiða sem varða strandveiðar og ályktar af þeim að ekkert standi í vegi fyrir því að skip hafi bæði almennt veiðileyfi og leyfi til strandveiða. Ákvæði 4. mgr. 6. gr. laganna, þar sem segir að frá útgáfudegi strandveiðileyfis sé fiskiskipi óheimilt, til loka fiskveiðiárs, að stunda veiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum, verði að túlka þannig að eigi aðeins við um „veiðar svk. skilgreiningu laganna á veiðum í atvinnuskyni í 4. gr. laganna, þ.e. veiðar með almennu veiðileyfi í krókaaflamark- eða aflamarkskerfinu og ekkert því til fyrirstöðu að veiðiskip sem hefur aflamark eða krókaaflamark stundi veiðar í atvinnuskyni allt þar til leyfi til strandveiða hefur verið gefið út“.

    Félagið telur að allar takmarkanir á strandveiðum og frístundaveiðum miðist við að óheimilt sé að stunda þær samhliða veiðum í atvinnuskyni, en til þeirra teljist einungis veiðar með aflamarki eða krókaaflamarki. Ekki sé „að finna neinar takmarkanir í lögunum sem koma í veg fyrir að heimilt sé að stunda strandveiðar og frístundaveiðar samhliða með fullum aðskilnaði“. Fyrir slíkri takmörkun sé því engin skýr lagastoð, eins og áskilja verði um stjórnvaldsfyrirmæli sem takmarki atvinnufrelsi manna skv. 75. gr. stjórnarskrárinnar.

Forsendur og niðurstaða

    Í stjórnsýslukæru þessari er byggt á því að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið gengið gegn þeirri meginreglu íslensks réttar að ákvarðanir stjórnvalda megi ekki vera í andstöðu við lög og verði að eiga sér stoð í lögum. Þá verði einnig að horfa til atvinnufrelsisákvæðis 75. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem kveðið er á um að atvinnufrelsi megi aðeins setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.

    Í hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 27. apríl 2012, er fjallað ítarlega um sjónarmið Sjóstangaveiðifélagsins og gerð grein fyrir skýringu og forsögu þeirra ákvæða laga um stjórn fiskveiða, sem koma við ákvörðunina. Fiskistofa fellst ekki á þá túlkun félagsins á 4. gr. laga um stjórn fiskveiða að einungis veiðar með aflamarki eða krókaaflamarki teljist til veiða í atvinnuskyni. Ljóst sé af orðalagi ákvæðisins og undirbúningsgögnum þeirra lagaákvæða sem varða frístundaveiði og strandveiðar, að þær veiðar teljist einnig til veiða í atvinnuskyni. Þá vísar stofnunin einnig til 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 549/2009 um leyfisskyldar frístundaveiðar, þar sem segir: „Ekki er heimilt innan sama fiskveiðiárs að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni á báti sem fengið hefur leyfi til frístundaveiða. Þó er Fiskistofu heimilt að veita bátum tímabundin leyfi til frístundaveiða sem gildi fyrir tímabilið 1. maí – 31. ágúst, enda stundi þeir ekki veiðar í atvinnuskyni innan þess tímabils.“ Reglugerð þessi er sett til nánari framkvæmdar á lögum um stjórn fiskveiða, m.a. í þeim tilgangi að halda með skýrum hætti utan um skráningu á afla. Sama má segja um 1. ml. 4. mgr. 6. gr. a. í lögum um stjórn fiskveiða þar sem segir að frá útgáfudegi strandveiðileyfis sé fiskiskipi óheimilt til loka fiskveiðiárs að stunda veiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum. Með vísun til þessara fyrirmæla auk forsendna hinar kærðu ákvörðunar, er hin kærða ákvörðun staðfest.

Úrskurðarorð

    Hin kærða ákvörðun er staðfest.


Fyrir hönd ráðherra


Ingvi Már Pálsson

        Arnór Snæbjörnsson

            



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum